Í tilefni 10 ára afmælis Oddfellowreglunnar á Austurlandi árið 2020, var ráðist í að lagfæra og taka í fóstur aðstandendaherbergi í Umdæmissjúkrahúsi Austurlands í Neskaupstað. Herbergi það sem um ræðir er ætlað aðstandendum sjúklinga sem dvelja á sjúkrahúsinu til lengri eða skemmri tíma bæði á hjúkrunar- og sjúkradeild. Endurbæturnar fólu í sér allsherjar lagfæringar á húsnæðinu ásamt endurnýjun á innanstokksmunum og húsgögnum.
Oddfellowreglurnar á Austurlandi lögðu fram fjármagn úr styrktar- og líknarsjóði sínum til að standa straum af kostnaði, auk vinnuframlags reglusystkina. Oddfellowreglunar fengu einnig til liðs við sig nokkur fyrirtæki sem komu að verkefninu, til dæmis var veittur veglegur afsláttur af efni og húsgögnum. Einnig bárust verkefninu gjafir frá reglusystkinum og fyrirtækjum.
Oddfellowreglunar á Austurlandi afhentu herbergið formlega til Umdæmissjúkrahúsins nú í byrjun nóvember.
Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað þjónar íbúum frá Djúpavogi til Vopnafjarðar, auk annarra sem sækja Austurland heim. Sjúkrahúsið hefur þjónað Austfirðingum frá árinu 1957 eða í um 65 ár.
Á starfssvæði sjúkrahússins búa tæplega 11 þúsund manns og akstursvegalengd frá þeim þéttbýliskjarna sem lengst þarf að fara eru tæpir 200 km.
Það er ósk reglusystkina Oddfellowreglunar á Austurlandi að herbergið muni þjóna sínum tilgangi vel.
Mynd tekin við afhendingu herbergisins. Fulltrúar Sjúkrahússinns þau, Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir og Jón H H Sen voru viðstödd afhendingu. Fulltrúar stúknanna, sem skiluðu verkinu af sér eru Einar Ólafsson, Þórunn Guðgeirsdóttir, Kristín Þorvaldsdóttir, Ólafur Áki Ragnarsson og Guðjón Magnússon. Myndina tók Björn Marinó Pálmason.