Heilsugæsla


  • HVERT Á AÐ LEITA

    Það getur verið óljóst hvert á að leita með mismunandi erindi innan heilbrigðisþjónustunnar. Valkvætt er til hvaða heilsugæslu innan HSA fólk leitar.

    Fólk ætti að snúa sér til heilsugæslunnar með öll erindi þar sem ekki er bráð lífshætta eða tafarlausrar meðferðar krafist í sjúkrahússumhverfi. Heilsugæslan beinir fólki áfram í viðeigandi farveg, svo sem í endurhæfingu, á sjúkrahús eða til sérfræðinga. Símanúmer vaktþjónustu heilsugæslunnar, s.s. utan dagvinnutíma, er 1700.

    Verði fólk fyrir alvarlegu slysi eða skaða ber að hafa samband við Neyðarlínuna í síma 112 sem gerir vakthafandi lækni og bráðateymi á viðkomandi svæði viðvart. Hafa má samband við vakthafandi lækni utan dagvinnutíma vegna heilsufarslegra erinda sem þola ekki bið.

  • TÍMAPANTANIR

    Í afgreiðslu heilsugæslustöðvarinnar taka móttökuritarar við tímapöntunum, gefa almennar upplýsingar um starfsemi stöðvarinnar og koma áríðandi skilaboðum til starfsfólks. Nauðsynlegt er að láta móttökuritara vita þegar mætt er í pantaðan tíma.  

  • LÆKNAR

    Heilsugæslulæknar hafa opið fyrir almenna móttöku vegna bráðra og langvinnra veikinda, og vegna slysa, alla virka daga á þjónustutíma stöðvanna. Heilsugæslulæknar sinna ennfremur bráðatilfellum utan bókaðra tíma, m.a. á svonefndri flýtivakt. Þá veita þeir símaráðgjöf, gefa út vottorð vegna veikinda og slysa og fara í sérstökum tilfellum í vitjanir til sjúklinga. Þeir taka einnig þátt í ungbarna- og mæðravernd heilsugæslustöðvanna. 

    Bókaður tími hjá lækni er venjulega 20 mínútur. Nauðsynlegt er að panta tíma nema um skyndileg veikindi eða slys sé að ræða.

  • HJÚKRUNARFRÆÐINGAR

    Við heilsugæslustöðvar HSA starfa hjúkrunarfræðingar, sem sjá um mæðra- og ungbarnavernd, heilsugæslu í skólum, heimahjúkrun fyrir skjólstæðinga heilsugæslustöðvarinnar, almenna heilsuvernd og móttöku sjúkra og slasaðra.

    Hjúkrunarfræðingar vinna í nánu sambandi við heilsugæslulækna stöðvanna. Þjónustu þeirra er hægt að nálgast með því að bóka viðtalstíma á heilsugæslustöðvum.

    Hjúkrunarfræðingar sjá einnig um að forgangsraða einstaklingum sem þarfnast þjónustu heilsugæslunnar samdægurs (flýtivakt).

  • SÍMATÍMAR

    Læknar eru með símaviðtöl alla virka daga á milli kl. 9 og 13. Þú hringir á stöðina og pantar símtal og venjulega hringir læknirinn samdægurs til baka. 

    Þessi þjónusta er fyrst og fremst til að svara stuttorðum fyrirspurnum, veita einfaldar ráðleggingar og gefa upplýsingar um niðurstöður rannsókna.

  • FLÝTIVAKT

    Hjúkrunarfræðingar sjá um að forgangsraða einstaklingum sem þarfnast þjónustu heilsugæslunnar samdægurs. Markmiðið er að veita þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni af þeim heilbrigðisstarfsmanni sem hefur yfir að ráða þekkingu á því vandamáli sem um ræðir. Þegar hringt er á heilsugæslustöð býður móttökuritari að skrá viðkomandi í símtal við hjúkrunarfræðing. Hjúkrunarfræðingurinn hringir til baka til að fá upplýsingar um ástæðu þess að viðkomandi þarfnast þjónustu.

    Út frá þeim upplýsingum metur hjúkrunarfræðingurinn hvernig bregðast skuli við:
    - Hjúkrunarfræðingurinn aðstoðar gegnum síma og metur að frekari þjónustu sé ekki þörf eða að bóka megi í næsta lausa tíma læknis.
    - Hjúkrunarfræðingurinn býður tíma samdægurs á heilsugæslustöð til frekara mats og þá hvort viðkomandi þarfnist sérhæfðari þjónustu innan heilsugæslunnar samdægurs.
    - Hjúkrunarfræðingurinn metur að viðkomandi þarfnist tafarlausrar þjónustu læknis og hefur milligöngu um að sú þjónusta sé veitt samdægurs.

  • LYFSEÐLAR, VOTTORÐ, TILVÍSANIR

    Endurnýjun lyfseðla
    Hægt er að endurnýja flest lyf með rafrænum skilríkjum gegnum vefsíðuna www.heilsuvera.is

    Þau lyf sem ekki er hægt að endurnýja með þeim hætti eru sterk verkjalyf, róandi lyf, eftirritunarskyld lyf, svefnlyf, sýkla-, sveppa- og veirulyf.

    Lyfjaendurnýjanir eru auk þess afgreiddar í síma
    470-3020 alla virka daga frá kl. 09:00 – 10:30.

    Þurfi símtal við lækni vegna endurnýjunar lyfja er símatími bókaður í sama númeri.

    Þurfi að endurnýja lyf sem eru í skömmtun hjá Lyfjaveri eða Lyfjalausnum þarf að skila skömmtunarkorti á næstu heilsugæslustöð.

    Vottorð
    Læknar sjá um gerð vottorða eftir beiðnum og eru þau misjöfn að gerð og umfangi. Almenna reglan varðandi að fá læknisvottorð er að panta þarf tíma hjá lækni meðan á veikindum stendur eða sem fyrst eftir að viðkomandi er rólfær. Sá sem óskar eftir vottorði þarf einnig að greiða fyrir þau. Aðeins er heimilt að afgreiða vottorð gegn greiðslu.

    Hafið samband við heilsugæsluna ef þörf er nánari upplýsinga.

    Tilvísanir
    Almennt þarf ekki tilvísanir til sérfræðilækna með þeirri undantekningu sem á við um börn á aldrinum 2-18 ára.  

    Bóka þarf tíma hjá heimilislækni vegna tilvísana barna. Börn á aldrinum 2-18 ára greiða ekkert fyrir heimsókn til sérfræðings ef þau eru með tilvísun frá heimilislækni en annars 30% af reikningi. Frítt er fyrir 2 ára og yngri og börn með umönnunarkort.
    Sjá nánari upplýsingar HÉR. 

  • BÓLUSETNINGAR

    Á vefnum Heilsuveru er hægt að nálgast ítarlegar upplýsingar um bólusetningar fyrir fullorðna, börn, ferðamenn, verðandi mæður, viðhald bólusetninga o.s.frv.

    Panta má bólusetningu fullorðinna og barna á næstu heilsugæslustöð, þ.m.t. ónæmisaðgerðir fullorðinna, vegna utanlandsferða eða til viðhalds fyrri bólusetningum. HSA sinnir ekki lengur heilsufarsskoðunum fyrir fyrirtæki eða aðra utanaðkomandi aðila.

    Ferðamannabólusetningar er unnt að fá á öllum heilsugæslustöðvum og -selum HSA. Gott er að panta símatíma hjá hjúkrunarfræðingi sem metur þörfina fyrir bólusetningar, skipuleggur þær og gefur tíma í komu. Nánar um ferðamannabólusetningar.

    Árlegar inflúensubólusetningar eru auglýstar sérstaklega.

  • VITJANIR

    Læknar sem og hjúkrunarfræðingar stöðvarinnar fara í vitjanir til þeirra sem af heilsufarsástæðum geta ekki komið til viðtals á stofu. Oftast sinna læknar vitjunum eftir að skipulagðri stofumóttöku lýkur. Bráðatilvik hafa alltaf forgang.

  • LÆKNAVAKT

    Vakthafandi læknar sinna bráðaþjónustu eftir kl. 16 virka daga og allar helgar (læknavakt). Sími 1700.

  • SJÚKRAÞJÁLFARI

    HSA fór árið 2016 af stað með nýtt þróunarverkefni á landsvísu, sem gengur út á að sjúkraþjálfari starfar nú við hlið lækna og hjúkrunarfræðinga í heilsugæslunni.

    Bak- og aðrir stoðkerfisverkir eru mjög algengir og orsaka stóran hluta óvinnufærni. Stór hluti bakverkja er vegna starfrænna ástæðna og leið að lausn er ekki síst í gegnum almenna og sértæka líkamlega þjálfum og réttar vinnustellingar. Sjúkraþjálfarar eru sérmenntaðir í stoðkerfi líkamans og þ.a.l. í að greina frávik í virkni þess. Því fyrr sem sjúkraþjálfari kemur að vandamáli þar sem sérþekkingar hans er þörf, því meiri líkur eru á skjótari og betri bata.

    Með því að hafa sjúkraþjálfara inni á heilsugæslu, þar sem aðrar starfsstéttir umgangast hann og eiga gott aðgengi að honum, læra þær að nýta sér styrkleika hans og þverfaglegt samstarf eykst.
    Hefð er fyrir starfi sjúkraþjálfara í heilsugæslunni í Svíþjóð og fleiri þjóðir hafa tekið þetta upp s.s. Finnar og Skotar.

    Viðfangsefni sjúkraþjálfara í heilsugæslu er:
    • Frumgreining
    • Ráðgjöf
    • Leiðbeiningar t.d. um æfingar
    • Ekki hefðbundin meðferð

    Móttökuritarar á heilsugæslu HSA bóka fólk hjá sjúkraþjálfaranum. Einstaklingar geta einnig óskað eftir slíkum tíma við móttökuritara.

    Viðvera sjúkraþjálfara í heilsugæslu HSA:
    Mánudaga: Egilsstaðir
    Þriðjudaga: Fáskrúðsfjörður
    Miðvikudaga: Egilsstaðir
    Fimmtudaga: Eskifjörður

    Sjúkraþjálfari heilsugæslunnar er að hefja fræðslu í grunnskólum um líkamsbeitingu, sem og á vettvangi skipulagðra samverustunda nýbakaðra foreldra með ungbörn sín.

    Athugið að eins og áður starfa sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar á endurhæfingardeildum HSA og vísa læknar til þeirra

  • UM HEILSUGÆSLUÞJÓNUSTU

    Heilsugæsluþjónusta nær yfir almennar lækningar, hjúkrun, heilsuvernd og forvarnir, bráða- og slysamóttöku og aðra heilbrigðisþjónustu sem veitt er á vegum heilsugæslustöðva, samkvæmt 4. grein laga um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007.

    Heilbrigðisstofnun Austurlands leitast við að veita íbúum Austurlands aðgengilega, samfellda og alhliða heilsugæsluþjónustu. Þjónustan grundvallast á sérþekkingu á sviði heimilislækninga, hjúkrunar og heilsuverndar og byggir á víðtæku, þverfaglegu samstarfi.

    Eftirfarandi þættir eru skilgreindir sem grunnþjónusta heilsugæslustöðva:

    • skipuleg móttaka læknis
    • skipuleg móttaka hjúkrunarfræðings
    • slysaþjónusta vegna smáslysa
    • símaráðgjöf hjúkrunarfræðinga
    • símaþjónusta læknavakt
    • þjónusta hjúkrunarfræðinga
    • skipuleg síðdegisvakt lækna
    • vaktþjónusta/skyndikomur
    • mæðravernd
    • ungbarnavernd
    • skólaheilsuvernd
    • heilsuvernd aldraðra
    • ferðamannabólusetningar
    • blóðsýnataka/önnur sýnataka
    • leghálskrabbameinsleit
    • reglubundnar ónæmisaðgerðir
  • NEYÐARMÓTTAKA VEGNA KYNFERÐISOFBELDIS

     Á Umdæmissjúkrahúsi Austurlands (FSN) er starfrækt neyðarmóttaka vegna nauðgana og kynferðisofbeldis. Vaktljósmæður fjölskyldudeildar sjá um neyðarmóttökuna ásamt vaktlæknum sjúkrahússins. Þar er tekið á móti þolendum kynferðisofbeldis sem eru 15 ára og eldri af báðum kynjum. 

    Til að fá aðstoð geta þolendur haft samband við sína heilsugæslu, 1700 eða 112.

    Öll mál sem varða börn yngri en 18 ára eru tilkynnt til lögreglu og barnaverndarnefnd. 

    Þolendum kynferðisofbeldis yngri en 15 ára er vísað á barnadeild LSH og í Barnahús til skoðunar og mats.

    Öllum þolendum, óháð aldri, stendur til boða þjónusta sálfræðings hjá Geðheilsuteymi HSA, óháð því hvort þeir vilja þiggja þjónustu neyðarmóttöku og greiða þeir komugjald fyrir.

     

Heilbrigðisstofnun Austurlands
Lagarás 22
700 Egilsstaðir
kt. 610199-2839
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.