Tímapantanir
Panta má tíma vegna heilbrigðisþjónustu hjá móttökuriturum heilsugæslustöðva. Auk þess að taka við tímapöntunum gefa móttökuritarar almennar upplýsingar um starfsemi stöðvanna og koma áríðandi skilaboðum til starfsfólks. Nauðsynlegt er að láta móttökuritara vita þegar mætt er í pantaðan tíma. Almennur læknatími er 20 mínútur.
Símanúmer heilsugæslustöðva.
Símatímar
Læknar eru með símatíma alla virka daga. Panta skal símatíma hjá móttökuritara á heilsugæslustöð og þá hringir læknirinn til þess sem á pantaðan tíma. Þessi þjónusta er fyrst og fremst til að svara stuttorðum fyrirspurnum, veita einfaldar ráðleggingar og gefa upplýsingar um niðurstöður rannsókna.
Flýtivakt - samdægursþjónusta
Hjúkrunarfræðingar sjá um að forgangsraða einstaklingum sem þarfnast þjónustu heilsugæslunnar samdægurs. Markmiðið er að veita þá þjónustu sem þörf er á hverju sinni af þeim heilbrigðisstarfsmanni sem hefur yfir að ráða þekkingu á því vandamáli sem um ræðir. Þegar hringt er á heilsugæslustöð býður móttökuritari að skrá viðkomandi í símtal við hjúkrunarfræðing. Hjúkrunarfræðingurinn hringir til baka til að fá upplýsingar um ástæðu þess að viðkomandi þarfnast þjónustu.
Út frá þeim upplýsingum metur hjúkrunarfræðingurinn hvernig bregðast skuli við:
- Hjúkrunarfræðingurinn aðstoðar gegnum síma og metur að frekari þjónustu sé ekki þörf eða að bóka megi í næsta lausa tíma læknis.
- Hjúkrunarfræðingurinn býður tíma samdægurs á heilsugæslustöð til frekara mats og þá hvort viðkomandi þarfnist sérhæfðari þjónustu innan heilsugæslunnar samdægurs.
- Hjúkrunarfræðingurinn metur að viðkomandi þarfnist tafarlausrar þjónustu læknis og hefur milligöngu um að sú þjónusta sé veitt samdægurs.
Ef um slys og alvarleg veikindi er að ræða þar sem bráðrar þjónustu er þörf – hringið í 112!